Fábrot: Örleikrit fyrir örfáa leikara

Fábrot er hluti af Pastel ritröðinni 2019 en Flóra á Akureyri stendur að þessari bókverkaútgáfu. Ritið var gefið út í 100 tölusettum og árituðum eintökum. Fábrot inniheldur örleikrit, það fyrsta er hér:

1. Konu vantar bók

Þátturinn gerist í bókaverslun af stærri gerðinni. Kaffi-og tesala næst innganginum en í miðri versluninni liggja nýlegar bækur á borðum. Gráar, frístandandi hillur aftan við borðin, þar blasa við kilir eldri skáldsagna. Metsölubækur snúa kápunni fram í rauðri hillu á vegg.

Persónur: Búðarsveinn, gyllt nafnspjald nælt í skyrtuvasann. Kona með spariveski og hanska.

Búðarsveinn: (Gengur til konunnar sem er að skoða bækurnar í hillunum). Góðan dag, kæra frú, get ég aðstoðað?
Kona: Já, góðan og blessaðan daginn, það vona ég að þú getir, eigið þið ekki eitthvað eftir Halldór?
Búðarsveinn: Hvaða Halldór?
Kona: Eru til margir?
Búðarsveinn: Já það eru margir sem heita Halldór. Halldór er frekar venjulegt nafn. Svona eins og Guðmundur og Ólafur. Eða Sveinn, Sveinn er líka frekar venjulegt nafn.
Kona: Og skrifa þeir allir bækur?
Búðarsveinn: Þessir menn? Ég veit það ekki. Ég þekki einn Ólaf sem er skáld. Ekkert sérstakt skáld reyndar. Sjálfur heiti ég Úlftýr. Það er óvenjulegt nafn. En ég er samt venjulegur.
Kona: Ég er að leita að bókum eftir Halldór.
Búðarsveinn (fórnar höndum): Já, en hvaða Halldór ertu að meina?
Kona: Nú, bara þennan eina sanna Halldór, Halldór Laxness.
Búðarsveinn: Já, hann! Við eigum svolítið til eftir þann Halldór. Hann skrifaði víst margar bækur. Sumar eru meira að segja til á útlensku. Ertu að leita að bókum á útlensku eða íslensku?
Kona: Íslensku.
Búðarsveinn: Þá eigum reyndar ekki svo margar.