Óskabarn: Bókin um Jón Sigurðsson

Það er stytta af honum á Austurvelli, mynd af honum á fimmhundruð kallinum og afmælisdagurinn hans var gerður að þjóðhátíðardegi. Hvað er svona merkilegt við þennan Jón?
Óskabarn: Bókin um Jón Sigurðsson fjallar um ævi og störf Jóns forseta, sem þó var ekki forseti Íslands. Þetta er litrík saga venjulegs sveitastráks sem verður stjórnmálamaður í Kaupmannahöfn og lykilmaður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Um leið fjallar bókin um kosningarétt, lýðræði og byltingar í Evrópu á 19. öld. Fóstursonurinn Siggi litli kemur líka við sögu og auðvitað unnustan Ingibjörg sem beið í 12 ár eftir Jóni.
Bókin Óskabarn er ætluð börnum til skemmtunar og fróðleiks. Bókin varð til í tengslum við samnefnda sýningu fyrir börn sem sett var upp í Þjóðmenningarhúsinu á 200 ára „afmæli“ sjálfstæðishetjunnar árið 2011. Brynhildur vann sýninguna með listamanninum Sigurjóni Jóhannssyni en fallegar vatnslitamyndir hans prýða bókina. Mál og menning gaf út.